fbpx
 
  • Auðmjúk frægð

    ,,Þeir sem eru stórir eru auðmjúkir“ heyrði ég einhvern tíma sagt um frægt fólk og aðra þá sem njóta velgengni. Ég hef tekið mér þetta til fyrirmyndar og eftir því sem velgengnin bankar sterkar á dyrnar hjá mér, vinn ég sífellt meira með auðmýktina og þakklætið. Fer með þakklætisbæn, brosi til fólks í kringum mig og býð fram aðstoð mína. Það er til dæmis alveg frábært að byrja daginn á að hjálpa erlendum ferðalöngum við að greiða í stöðumælinn. Þakklæti og samræður skapast við þessa litlu athöfn og fara ferðamennirnir glaðir leiðar sinnar – ekki síður en ég.


    Stórleikarinn John Hawkes kom á RIFF um daginn og er hann svo sannarlega gott dæmi um auðmýkt og frægð. Hann hefur einstaklega fallega framkomu, þakkar ávallt fyrir sig og finnst ekkert sjálfsagt, ætlaðist eiginlega ekki til neins. Hann einfaldlega er. John varð undir eins hluti af hópnum og sambandið á milli hans og leikstjórans, Elfars Aðalsteinssonar var einstaklega fallegt og sýndu þeir hvor öðrum mikla virðingu og vinsemd.

    Fólk eins og John, gleður og gefur af sér, ekki bara á hvíta tjaldinu heldur einnig í eigin persónu og er endalaus uppspretta þakklætis og góðra samskipta. Það var ánægjulegt að kynnast honum en enn ánægjulegra að vera í flæði auðmýktar og þakklætis með honum – þar naut ég mín best.