fbpx
 
 • Vigdís

  ,,Nú er ég amma þín“ sagði Vigdís Finnbogadóttir og brosti til mín. Mér hlýnaði um hjartaræturnar og brosti feimnislega á móti.

  Ástæðan fyrir þessum orðum hennar var að ég fékk það góða verkefni að sækja hana á viðburð hjá okkur á RIFF í síðustu viku. Þegar við gengum niður tröppurnar fyrir utan hjá henni og ég spurði hvoru megin ég gæti boðið henni arminn, rifjaðist það upp fyrir mér hvernig amma mín og uppeldismóðir bað mig ætíð um að vera hægra megin við sig, þeim megin sem hún heyrði betur.

  Ég sagði Vigdísi frá ömmu minni og það hvernig hún hefði síðustu árin valið að heyra það sem henni hentaði og hlógum við saman í bílnum á leiðinni. Svo ræddum við samskipti, kynslóðir og ömmu. Bílferðin var alltof stutt, ég hefði viljað vera mikið lengur með henni í bílnum.

  Þegar við fórum til baka, lét hún þessi orð falla þar sem við gengum arm í arm við Norræna húsið, að nú væri hún amma mín. Það varð eins og allt hægði á sér, við tvær einar í heiminum og í samræðum um ömmu mína. Ég rifjaði upp fleiri góðar og skemmtilegar sögur af ömmu til viðbótar og hlógum við Vigdís saman.

  Það er gott að hlæja með Vigdísi.