fbpx
 
 • Móðir, dóttir, traust!

  Saklaust sælgætistal okkar mæðgna hratt af stað atburðarás sem kom bæði á óvart og stækkaði hjarta mitt. Dóttir mín nefndi nefnilega í framhjáhlaupi að stjúpi hennar og kærasta höfðu gefið henni sælgæti sem hún borðaði ekki, þegar hún sótti þau til Keflavíkur um daginn. Svo bætti hún við að kærastan hefði pottþétt valið þetta og að með þessu væri hún að reyna að vera vinkona sín því ilmvatn og body lotion hefðu fylgt gjöfinni….. og eftir smá stund bætti hún enn við og sagði að sér hefði þótt þetta óþægilegt.

  Vá hugsaði ég en sagði svo að ég héldi að þau vildu nú vel og að þetta væri þakklætisvottur. Svo áttaði ég mig á að ég ætti ekki að lesa í þetta á nokkurn hátt, heldur einfaldlega virða upplifun dóttur minnar.

  Daginn eftir þegar ég keyrði hana í skólann vakti ég aftur máls á þessu, sagði henni að það væri alveg sama hvað öðrum fyndist (að mér meðtalinni), því þetta væri hennar upplifun og hún þyrfti ávallt að segja sína meiningu, setja mörk og virða tilfinningar sínar. Ég sá hve henni var létt og eftir smá stund bætti hún við að hún hefði ekki viljað segja stjúpa sínum frá keppni sem hún væri að fara í þá helgina af ótta við að kærastan kæmi líka – hún vildi ekki vera í þeim aðstæðum.

  Við mæðgur sátum heillengi í bílnum og ræddum þetta. Að lokum bauð ég henni að ég skyldi hringja í stjúpann og segja honum þetta, bæði með gjöfina og keppnina. Hún þáði það og fór ég gaumgæfulega yfir hvernig og hvað ég ætlaði að segja svo elsku dóttir mín væri örugg með að þetta færi rétt fram.

  Þegar ég hringdi í fyrrum eiginmann minn, var ég búin að leggja mér línurnar, fara vel yfir hve möguleg viðbrögð hans yrðu, hvernig ég myndi velja viðbragð til að ekkert kæmi frá mér persónulega, að hvorki mínar eigin skoðanir eða álit dyttu inn í samtalið…. og það tókst.

  Sem móður og uppalanda leið mér mjög vel að hafa náð að hlusta og áttað mig á stöðunni en best leið mér þó með að geta aðstoðað dóttur mína á hennar forsendum. Við ræddum þetta síðan við bróður hennar og kærustu hans síðar um kvöldið sem mér fannst nauðsynlegt til að þau gætu líka tjáð sig.

  Ég er þakklát, þakklát og aftur þakklát.