fbpx
 
 • Afþakkaði umræðuefnið

  Ég og fjölskylda mín erum einstaklega stjórnsöm sem kemur meðal annars fram í því að við erum alltaf að gefa ráð, óumbeðið. Svona hefur það verið í háa herrans tíð og frekjan er slík að maður heldur að þetta sé hið besta mál og að allir séu hreinlega að bíða eftir ráðum og leiðbeiningum frá manni. Síðustu tvö ár hef ég verið sú sem hef fengið þessi ráð óumbeðið í tíma og ótíma. Fólk hefur einhvern veginn fengið skotveiðileyfi á mig, spurt mig af hverju þetta og hitt. Það sem mér hefur þótt sérlega athyglisvert er hve margir hafa allt í einu skoðanir á fyrrum maka mínum sem og skilnaðinum.

  Við einfaldlega erum!
  Mynd: Ragnheiður Arngrímsdóttir

  Upp á síðkastið hefur eitthvað breyst innra með mér. Þetta umræðuefni, skilnaðurinn minn er bara orðið eitthvað svo úrelt. En ég hef hlustað kurteisislega, skipt um umræðuefni við næsta tækifæri og leitt þetta hjá mér. Það kom mér hinsvegar í opna skjöldu hve ég komst við þegar góður vinur minn byrjaði á að ræða fyrrum maka minn, segja mér frá einhverju sem ég hafði aldrei heyrt, hvað þá kannaðist við. Mér fannst þetta óþægilegt og ákvað að leita leiða til að draga umræðuefnið annað sem tókst ekki á því augnabliki svo ég leitaði ráða daginn eftir hvernig ég gæti lært að snúa umræðunni kurteisislega í aðra átt.

  Tækifæri til að æfa þá lærðu aðferð kom þegar ég fór í annað matarboð stuttu síðar því aftur kom þetta skilnaðarmál upp og sagði ég þá blákalt við vinkonu mína að ég afþakkaði þetta umræðuefni. ,, Hva má maður ekki spyrja“ sagði hún og þá endurtók ég að ég hefði ekki þörf fyrir að ræða þetta, síðasti söludagur þessa umræðuefnis væri liðinn.

  Þessi nýja aðferð kveikti samviskubit hjá mér og upplifði ég mig eins og ég væri dónaleg við hana svo ég hringdi í hana daginn eftir og útskýrði fyrir henni hvað fyrir mér vakti, að mér fyndist ekki viðeigandi að bjóða upp á þessa umræðu mikið lengur, hvað þá í gleði með góðu fólki og góðum mat. Svo upplýsti ég hana um hluta þess sem gekk á við skilnaðinn og brá henni við að heyra mína hlið á málinu.

  Þetta hefur minnt mig á að slaka nú aðeins á stjórnseminni og að ég þurfi ekki að vita, ræða og spyrja, nú eða gefa vinum mínum ráð nema þeir gefi kost á því. Við einfaldlega erum. Vináttan er líka svo mögnuð og gefandi að það er óþarfi að draga þriðja aðila inn í samtalið.