fbpx
 
 • Mamma leigusali

  Þegar sonur minn og tilvonandi tengdadóttir óskuðu eftir að flytja inn til mín varð ég glöð og hlakkaði til að fá þau. Síðast þegar þau fluttu inn stoppuðu þau reyndar stutt við í herberginu sem ég hafði málað og ekki bara það heldur keypti ég nýtt rúm handa þeim. Dóttirin var alsæl þegar þau fóru og flutti strax á milli herbergja í nýja rúmið og nýmálaða herbergið.

  Í þetta skipti fengu þau hvorki nýtt rúm né nýmálað herbergi heldur bauð ég þeim litla gestaherbergið og bætti við að það væri nú kominn tími á að mála það en að ég gæti nú sjálfsagt hjálpað til. Sonurinn var nú ekkert of upplitsdjarfur í þessum samræðum, varð hálf vandræðalegur sannast sagt.

  Svo gerðist það einn daginn að hann spurði mig beint út hvort þau gætu bara ekki fengið herbergið mitt, ég væri jú ein og þyrfti ekkert mikið pláss – væri búin að taka svo vel til osona hvort sem væri í lífinu almennt, fataskápnum eða herberginu. Fyrst hló ég mig máttlausa en svo áttaði ég mig á tækifærinu sem fólst í þessu og lagði spilin á borðið.

  Ég samþykkti að flytja um herbergi og að þau fengju hjónaherbergið gegn því að þau borguðu 100.000 kr. leigu – en ekki mér, heldur inn á sinn eigin lokaða sparnaðarreikning. Þeim fannst þetta nú heldur há upphæð en ég var ósveigjanleg með þetta – og bætti svo við að þegar þau væru bæði komin í fulla vinnu eftir áramót þá hækkaði leigan upp í 150.000 kr. Þau sáu sæng sína útbreidda og hættu að reyna að semja.

  Nú nýt ég ekki bara félagsskapar þeirra allra, heldur fæ ég líka sendar kvittanir mánaðarlega, með staðfestingu á innleggi á sparnaðarreikn hvors um sig.

  Mér þykir vænt um þessa niðurstöðu og líður vel í litla herberginu mínu ásamt hundinum Max, nýjasta fjölskyldumeðlimi okkar. Og það var alveg satt hjá stráknum, ég þarf ekki mikið pláss fyrir veraldlega hluti mér líður vel og hlakka til að stinga mér undir sæng – í nýmálaða litla herberginu mínu og svei mér þá ef Max er ekki jafn spenntur.

  Ég er þakklát.