fbpx
 
 • Leyndarmál?

  Hvað segir maður við barnið sitt þegar fyrrverandi maki hefur beðið það um að þegja yfir leyndarmáli? Ég rifjaði þetta upp í samtali við vinkonurnar um daginn. Þær urðu alveg hlessa.

  Þegar ég stóð í miðju skilnaðarferlinu sá ég á Facebook hjá einu bílaumboði hér í borg, mynd af fyrrverandi manninum mínum við nýjan bíl sem hann keypti sér. Hann hafði hvergi minnst á bílinn við mig og þeir fjármunir eða bíllinn var heldur ekki minnst á í skilnaðaruppgjörinu. Ég verð að viðurkenna að ég varð hissa að sjá þetta, en ákvað að bregðast ekki við, vera sama.

  Það sem mér stóð hinsvegar ekki á sama um var að nokkrum vikum seinna, þegar börnin og ég vorum að ræða saman við kvöldverðarborðið og ég spurði hvort þau hefðu séð nýja bílinn – þá þagnaði sonur minn og spurði mig síðan mjög varfærnislega hvernig ég vissi það. Ég sagðist einfaldlega hafa séð þetta á Facebook. Þá bætti hann við að hann hefði séð bílinn en verið beðinn um að segja mér ekki frá því.

  Ég sagði að mér fyndist nú bílakaup ekki vera leyndarmál og fór ekki lengra með samtalið við börnin mín. Hinsvegar þegar við fyrrum hjónin vorum búin að ganga frá skilnaðarpappírunum þá sagðist ég hafa heyrt af þessari leyndarmálsbeiðni og bað hann vinsamlegast um að setja börnin mín aldrei í þessa afstöðu aftur, að biðja þau um að þegja yfir einhverju gagnvart mér – það væri óeðlilegt og alls ekki sanngjarnt gagnvart þeim. Hann varð hissa á vitneskju minni og umlaði einhverja útskýringu sem ég ákvað að leiða fram hjá mér.

  Þegar ég svo sagði börnunum mínum frá þessu samtali okkar bætti ég við að þau ættu aldrei að taka við neinu slíku leyndarmáli hvorki frá honum né öðrum – ef það má ekki tala um eitthvað er bara best að afþakka þær upplýsingar.