fbpx
 
 • Þakkargjörð

  Það sem ég hef lagt áherslu á síðastliðin ár er að tengja við hjartað fremur en höfuðið og að verða heil (e. whole). Það var því kærkomin stund við matarborðið með vinum mínum á Þakkargjörðahátíð að ræða þakklæti, mannrækt og heilindi.

  Flest okkar vorum að halda Þakkargjörð í fyrsta skipti svo hinn ameríski eiginmaður vinkonu minnar sagði okkur frá hefðinni og sögu hennar. Áður en borðhald hófst sögðum við hvert og eitt frá því sem við erum þakklát fyrir sem var sérlega gefandi að heyra.

  Þá sem mér þykir vænt um set ég í hjarta mér, í því partýi er fámennt en góðmennt og þarna við borðið var gott hlutfall meðlima. Það hefur verið mér áskorun í lífinu að treysta mér og þá meina ég að vera eins og ég er án fordóma í eigin garð. Mér hefur gengið betur síðustu ár, sér í lagi eftir að ég tók þá ákvörðun að skilja, að elska mig og heila mig en áskoranirnar hafa verið þó nokkrar – en ég hef ekki viljað hafa þetta neitt öðruvísi en það er.

  Og þar sem ég sat þarna við matarborðið og hlustaði á þakklæti vina minna fylltist hjarta mitt af kærleika og augu mín af hlýjum tárum. Þegar röðin kom að mér naut ég þess að deila með þeim hverju ég er þakklát fyrir.

  Þetta var sönn vinastund.