fbpx
 
  • Abuela

    Föðurfjölskylda barnanna minna er kanarísk, frá eyjunni Gran Canaria og eftir að við barnsfaðir minn slitum samvistum og ég flutti þaðan árið 2002 hef ég lítið sem ekkert komið á eyjuna. Hins vegar lagði ég alltaf gríðarlega áherslu á að börnin mín færu og sendi þau snemma á vorin suður eftir og tók á móti þeim þegar skólinn byrjaði – því þau áttu jú sitt föðurfólk þar og skyldu tengjast þeim. Þetta gekk allt eftir og er ég þakklát hve vel hefur tekist til. Síðustu ár hef ég farið reglulega með þeim og er það dásamlegt að finna hve velkomin ég er og nýt ég þess að vera með fólkinu þeirra.

    Ég kom heim til Íslands um helgina eftir mánaðardvöl á Gran Canaria þar sem ég dvaldi með þeim flesta hátíðisdaga upp í sveit. Seinasta daginn átti abuela eða amma barnanna minna afmæli. Fjölskylduhópurinn sem ég er nú hluti af á Whatsapp sendi henni kveðjur yfir daginn en ég ákvað að keyra til hennar, gefa henni blóm og kveðja.

    Hún ljómaði þegar ég kom með blómin, bauð mér upp á te og með því og sátum við í um klukkustund og spjölluðum um börnin mín  (ömmu börnin hennar), lífið almennt og ferðalag þeirra hjóna til Íslands síðar á árinu en við gáfum þeim flugmiða til Íslands í Reyes (spænsku jólin). Abuela ræddi einnig við mig um ástina og kærleikann, vinnuna mína, veðrið sem biði mín og spurði frétta af snjóflóðunum.

    Þessi mannlegi þáttur er ávallt hinn sami hvort sem maður er fæddur í fjallaþorpi á Gran Canaria eða Fæðingarheimilinu í Reykjavík. Viðhorfin móta okkur og við konurnar tvær sem sátum og ræddum saman vorum að engu leyti frábrugðnar.  Þvílík blessun sem lífið mitt er.