fbpx
 
 • Mamma mín

  Mamma mín var ekki tilbúin að eignast barn þegar ég fæddist og ólst ég upp hjá ömmu minni og afa og vorum við mamma alltaf í sambandi. Síðustu ár hef ég nálgast hana á nýjum forsendum og í vinnu minni að minni velsæld hef ég oft haft hana í forgrunni.

  Alls kyns tilfinningar hafa komið upp í þessari velsældarvinnu sem hefur verið sérlega dýrmætt að fara í gegnum og hef ég áttað mig betur og betur á tengingu okkar.

  Síðasta þriðjudag sagði ég við vinkonur mínar að ég hefði sett mér það markmið að segja við hana; mamma mín – og meina það. Að segja slikt við mömmu í samtali var fyrir mér mikilvæg nálgun, að opinbera væntumþykju mína gagnvart henni á þennan máta því mig langaði til þess af öllu hjarta.

  Daginn eftir fór hún okkur öllum að óvörum inn á spítala því gúlpur hafði fundist neðarlega í ósæðinni hjá henni, langt yfir hættumörkum og átti hún að fara í einfalda aðgerð morguninn eftir til að fjarlægja hann.

  Um kvöldið heyrð ég í henni í síma og sagði án þess að hugsa mig um: ,,Mamma mín, við skulum ekki panikera neitt, þetta er einföld aðgerð og ég verð hjá þér þegar þú vaknar. Vertu bara róleg mamma mín, við hugsum til þín, sofðu vel og hvíldu þig. Góða nótt“.

  Klukkutíma síðar, rifnaði ósæðin og hún var öll. Þegar við kvöddum hana í sjúkrarúminu síðar um kvöldið, kyssti ég hana og strauk og sagði: Takk fyrir lifið mamma mín.