fbpx
 
 • Jarðar-fjör

  Við systkinin ákváðum að minnast mömmu okkar með húmor og gleði. Við erum þrjár systurnar og einn bróðir, við tvær elstu ólumst ekki upp hjá henni en þau tvö yngstu gerðu það.

  Við höfðum þvi mismunandi tengingu við hana en vorum alltaf í sambandi og hittumst reglulega.

  Viku áður en hún dó voru fjörlegar umræður um jarðarfarir á milli hennar og yngstu systur minnar. Þar sagði mamma að hún vildi m.a. sætan prest í sinni jarðarför. Aðspurð sagði hún að sér fyndist hann séra Hjörtur Magni sætur.

  Auðvitað fengum við öðlinginn hann Hjört Magna til að jarðsyngja hana og þegar hann fann stemninguna okkar þá kallaði hann þetta jarðarfjör – að minnast alls hins skemmtilega og glaðlega varðandi mömmu enda var hún mikill húmoristi – nokkuð sem tengir okkur systkinin saman. Og það var rauði þráðurinn í gegnum allan undirbúninginn og athöfnina sjálfa.

  Ég hélt persónulega ræðu á undan séra Hirti, og kom meðal annars inn á þessa ósk hennar, þá glumdi frá altarinu – þá hefur hún mamma þín ekki séð mig lengi- og hlógu allir kirkjugestir hátt og innilega.

  Þegar útgöngumarsinn fór að hljóma brosti séra Hjörtur Magni og sagði upphátt; ABBA? Já, svaraði ég – Mamma mía á hér vel við. Og svo gengum við systkinin, barnabörnin og vinir með kistuna út undir glaðlegu spili organistans á þessu magnaða lagi – en mamma var sú eina sem ég þekki sem fór á tónleika með þeim á áttunda áratugnum.