fbpx
 
 • Vinátta

  Það hefur aldrei verið mér eins mikilvægt og síðustu ár að eiga góða og heiðarlega vini. Ég er lánsöm því ég hef lagt áherslu á að finna gleðina aftur í lífi mínu, hlæja meira og slaka á spennu áranna á undan og hafa vinir mínir hlegið þessi ósköp með mér.

  Það er gott að vera í þessu flæði, aftengja leiðinlegar minningar og tengja nýjar hamingjuríkar. Stundum hef ég ríghaldið í gamlar tilfinningar en ég er öll að koma til og hef verið að henda gömlu dóti, myndum og minningum sem ég kæri mig ekki um lengur.

  Um helgina rakst ég svo á þessa frábæru mynd frá skemmtilegu ferðalagi með vinkonum frá síðustu Verslunarmannahelgi. Við fórum til Súðavíkur á gönguhátíð en nenntum ekki í neina göngu vegna veðurs, fórum í staðinn í sjósund, nutum náttúrunnar og félagsskaparins og fífluðumst heilmikið.

  Þessi sami dásamlegi hópur ákvað að fara á skíði til Norður-Ítalíu núna í mars…. sem varð að skíðafríi til Akureyrar…. sem varð að menningarferð til Akureyrar…. sem á endanum varð að helgarferð í bústað á Snæfellsnesi með engum heitum potti, í aftaka veðri og lokaðri sveitasundlaug yfir vetrartímann. Og það var hlegið og dansað og sungið… en ég var aftur á móti heima í flensu en fékk reglulega sendar myndir af gleðinni og hló með.

  Ég er þakklát fyrir vini mína, því síðustu ár hef ég tengst vinahópum mínum sterkari böndum, uppgötvað nýjar víddir, kynnst nýju fólki og notið mín.

  Þegar svo ástandið er eins og það er þessa dagana þá eru það vinirnir og börnin mín sem ég nýt svo sannarlega að vera með. Mér finnst ég geta allt og líf mitt vera mikil blessun.
  Já, ég er lánsöm kona.