fbpx
 
 • Slepptu kona slepptu

  Röddin hvetur mig áfram. Ég stend í miðri forinni upp að mitti og held dauðahaldi í spottann. Spottinn færir mér meir og meir mykju, heita og mjúka og það hækkar sífellt í.

  Mér líður vel í hitanum frá mykjunni, þekki þessa lykt og aðstæður, hef verið í þeim oftar en ég get munað. En nú er hugur minn og sýn komin áleiðis annað. Samt held ég fast í.

  Mynd: Ragnheiður Arngrímsdóttir

  Þá segir röddin fallegum en ákveðnum rómi: Slepptu kona slepptu. Ég heyri annan tón, önnur blæbrigði og ég finn hve sýn mín styrkist. Smám saman vel ég að slaka á spottanum, læt hann renna úr greipum mér og geng öruggum skrefum að útgöngudyrunum.

  Ég opna hurðina og kíki út. Svei mér þá hvað þetta er fallegt allt saman. Ég stoppa augnablik, heyri fuglasöng, velti fyrir mér hvort þessi sól verði nokkuð lengi þarna sem og fallegu túnin. Þetta gæti nú allt farið í næsta eldgosi eða ég gæti verið rænd eða ég gæti villst af leið eða ég gæti drukknað eða ég kannski mögulega…..

  Slepptu kona slepptu!