fbpx
 
 • Ég fæ allt…sem ég vil

  ,,Ég hef sjaldan kynnst neinum sem er eins bænheyrð og þú“ sagði ein vinkona mín við mig um daginn. Ég brosti og þakkaði henni falleg orð.

  Að sjálfsögðu ætlaði ég að fara að draga úr þessu hjá henni en eftir að hafa hugsað málið var ég sammála henni. Það er allt eins og það á að vera og ég fæ allt sem ég vil…punktur.

  Það var mín mesta gæfa að stíga út úr hjónabandinu og treysta alfarið á sjálfa mig. Verð að viðurkenna að það tók sinn tíma og datt ég oft á rassinn en alltaf stóð ég upp aftur. Þegar ég hætti að skamma mig og vildi mig í öllu því ástandi sem ég valdi til mín, fóru hjólin að snúast.

  Stærsta áskorunin sem einyrki og sjálfstætt starfandi verkefnastjóri var að fá verkefni – þá breytti ég hegðuninni og fór að segja upphátt hvernig verkefni ég vildi. Fyrst hugsaði ég þau sem leið til að borga skuldirnar sem ég stóð uppi með og gekk það bara vel. Síðan breytti ég hegðuninni gagnvart þeim lika og fór að vilja verkefni sem gæfu mér ánægju ásamt lífsviðurværi og volá, það gerðist!

  Ég vil, ég vil, ég vil er mantran mín (sem var nú ekki jákvætt að segja í minni æsku) en með því að opinbera vilja minn tek ég ábyrgð á sjálfri mér og vil vera þar sem ég er.

  Já, ég fæ allt sem ég vil!